Hægra / vinstra | málverk & prent

Verk unnin fyrir sýninguna HÆGRA / VINSTRA í Ásmundarsal sem stóð yfir 27. feb – 5. apríl, 2021. 

„Áður en hún veit af keyrir hún um á hreinasta bíl Reykjavíkur, svo eftir verður tekið. Myndasafn sem sprettur úr sápulöðri lítur dagsins ljós. Eðlislæg forvitni Eddu hefur yfirstigið félagsleg höft og tekur völdin í hnýsinni myndaseríu. Fótatak utan við hús verður til þess að hún stekkur af stað með myndavélina og rammar inn nágranna sína með næmu auga í samstarfi við sólina. Myndirnar hanga í nágrenni við eldri grafíkverk Eddu á Mokka. Sú forvitna skoðar umhverfi sitt með opnum huga og er vakandi fyrir óvæntum augnablikum, teiknar tré í garðinum með vinstri hendinni, endurtekið og undrast fegurðina í ófullkominni speglun úr heilahvelunum. Forvitni er eiginleiki sem fólk missir oft á tíðum með árunum en svo er ekki í tilfelli Eddu Jónsdóttur. Hún er síáhugasöm um listina, mannfólkið og umhverfið en þessi forvitni verður að elixsír í ástandi sem best verður lýst sem frelsi og virðist aukast í veldisvexti eftir því sem tíminn líður. Frjáls eins og fuglinn leyfir listamaðurinn sér að fara sínar eigin leiðir og gera athuganir, af því bara.“