Sigurður Árni Sigurðsson

Sigurður Árni Sigurðsson (f. 1963) hefur haldið yfir 50 einkasýningar og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum víða um heim. Hann var fulltrúi Íslands á Tvíæringnum í Feneyjum árið 1999, verk eftir hann var valið táknmynd Reykjavíkur, Menningarborgar Evrópu árið 2000 og árið 2020 var stór yfirlitssýning sett upp í Listasafni Reykjavíkur þar sem farið var yfir feril listamannsins frá upphafi til dagsins í dag. Sigurður Árni hefur starfað sem gestakennari við Listaháskóla Íslands og Listaháskólann í Montpellier–École Supérieure des Beaux Arts Montpellier í Frakklandi. Auk þess að eiga verk á öllum helstu listasöfnum landsins, opinberum söfnum og einkasöfnum víða erlendis hafa stærri verk verið sett upp eftir hann á opinberum stöðum. Má þar nefna útilistaverkið Sólalda við Sultartangavirkjun, Ljós í skugga í Dvalarheimilinu Hlíð á Akureyri, útilistaverkið L‘éloge de la nature í bænum Loupian í Suður-Frakklandi og Vegglistaverkið Sól úr norðri í Urriðaholti í Garðabæ.