Hekla Dögg Jónsdóttir

Verk Heklu Daggar Jónsdóttur (f. 1969) hafa gjarnan einhverja virkni og eru knúin áfram af áhuganum á augnabliki ummyndunar og efnahvarfa. Hún hefur áhuga á því óræða millirými sem verður til við yfirfærslu. Virkni og efniseiginleiki skarast á við töfra og andlega þætti. Hekla bæði fangar og býr til aðstæður fyrir þessar heillandi ummyndanir sem listin gefur svo frjálst og opið rými. Hekla útskrifaðist úr námi við Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Hún sótti skiptinám við Listaháskólann í Kiel í Þýskalandi og viðbótarnám við Staatliche Hochschule für Bildende Künste í Frankfurt am Main. Að loknu námi í Þýskalandi hélt Hekla til Bandaríkjanna til náms við Listaháskólann í Kalíforníu, California Institute of the Arts þaðan sem hún lauk MFA prófi árið 1999. Allt frá útskrift hefur Hekla verið virk í sýningarhaldi og hefur sýnt í söfnum og á öðrum sýningastöðum bæði hér heima og erlendis. Hekla gegndi stöðu prófessors í myndlist við Listaháskóla Íslands í 10 ár og er einn af stofnendum Kling & Bang.