Elín Hansdóttir

Elín Hansdóttir (f. 1980) býr og starfar í Reykjavík. Hún lærði við Listaháskóla Íslands og lauk MA gráðu frá KHB-Weissensee í Berlín árið 2006. Meðal einkasýninga hennar eru Eigenzeit í Künstlerhaus Bethanien (2022), Ad Infinitum í Gerðarsafni (í samstarfi við Úlf Hansson, 2022) og Annarsstaðar í Ásmundarsal (2020). Í maí 2022 var útilistaverkið Himinglæva afhjúpað við Hörpu tónlistarhús. Elín hefur einnig unnið leikmyndir bæði hérlendis og erlendis, en hún hlaut Grímuverðlaun fyrir leikmynd sína fyrir Vertu Úlfur sem frumsýnt var í Þjóðleikhúsinu árið 2021. 

Elín Hansdóttir sameinar skúlptúr, ljósmyndun og innsetningar með þverfaglegri nálgun sinni og skapar staðbundin verk á mörkum ólíkra sjón- og skynrænna þátta. Meginþráður í listsköpun hennar er upplifun áhorfandans og skynjun hans á nærumhverfi. Mörg verka hennar byggja því á leik með rými, stærðarhlutföll og sjónhverfingar sem hafa það að leiðarljósi að færa hverjum og einum ný sjónarhorn á sína eigin skynjun og raunveruleikanum um leið.