Baldvin Einarsson

Baldvin Einarsson (f. 1985)  útskrifaðist með BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2011 og lauk MA prófi í myndlist frá konunglegu Akademíunni í Antwerpen í Belgíu. Hann býr og starfar í Antwerpen. Baldvin hefur sýnt verk sín víðsvegar um Evrópu en einna helst á Íslandi og í Belgíu. Á einkasýningu sinni Op í Hafnarhúsinu 2021 sýndi Baldvin dyralúgur úr bronsi paraðar við staðhæfingar. Hann lýsir verkunum sem lágmyndum utan um myrkur. Sýningin var margræð og fjallaði meðal annars um frjálsan vilja og gildismat. Á síðustu sýningu sinni í Belgíu sýndi listamaðurinn tugi hnúta úr keramiki sem minntu á bókstafi og tákn, í verkunum sameinast teikning og skúlptúr. Um þessar mundir vinnur hann að gerð varanlegra skúlptúra fyrir almenningsgarð í Merksem í Belgíu.